ég hef engu gleymt...

...þó að ég tali ekki um það og láti sem ekkert sé

Friday, June 24, 2005

Bunny is back

Tíska hefur í mínum huga verið frekar ómerkilegt fyrirbæri og ég hef (með litlum árangri) reynt að forðast tískufyrirbrigði. Nú síðast hét ég því að klæðast ekki sígunapilsi og sandölum í sumar þó mér finnist það í raun rosa flottur klæðnaður. Um mig leika hlýjar minningar um hina undirfögru Tinnu sem passaði mig sumarið 1982, hún var með mikið og sítt hrafntinnusvart hár, svartmáluð undir augunum og gekk berfætt í bandasandölum (nákvæmlega eins og þeim sem fást í öllum skóbúðum í dag) svo voru pilsin hennar stór og víð, litrík og stundum með gull eða silfurþráðum. Ég vona að ég get staðið við þetta loforð mitt til sjálfs míns því það kraumar í mér löngun til að fara að róta í skápnum hennar mömmu og finna gamla brúna sígunapilsið hennar.

Ég er í nokkuð skemmtilegu grúski þessa dagana uppá þjóðó í tengslum við þessa ritgerð sem ég ætti að vera löngu búin með. Ég er nefnilega stöðugt búin að rekast á pælingar um tískuna þegar ég er að lesa mér til um daglegt líf íslenskra kvenna sem fæddust uppúr aldamótunum síðustu. Þegar ég tók viðtal við langömmu síðasta sumar þá kom það í ljós að tískan skipti hana líka miklu máli. Það var æðislegt að heyra lýsingar hennar á því þegar hún klippti af sér flétturnar og fékk sér drengjakoll sem var einmitt móðins um það leiti sem amma var unglingstúlka. Amma sagði að bróðir hennar hafi flippað út þegar hann sá hana, yfir sig hneykslaður. Amma var Reykjavíkur dama, alin upp á Bergþórugötunni en tvítug flutti hún til eyja til að hefja búskap með afa. Vestmannaeyjingar vissu ekki alveg hvað þeir áttu að halda um þessa stuttklipptu nútímakonu og amma fékk nokkur skot frá kellingunum í Betel söfnuðnum. Í viðtalinu kvartaði amma líka undan því að það var bókstaflega ekkert í Eyjum þegar hún flutti þangað 1928, ekki einu sinni hárgreiðslustofa. Ég las það svo í gær að fyrsta hárgreiðslustofan hafi samt ekki verið stofnuð í Reykjavík fyrr en 1913 og nafnið er eins og klippt út úr Tinnabókunaum eða í þá áttina “Hárgreiðslustofa Krístólínu Kragh.”

Svo var ég að lesa frábæra grein sem Halldór Laxnes skrifaði í Mogganum í ágúst 1925 og hét “Drengjakollurinn og íslenska konan.” Dóri Lax klikkar ekki í gagnrýni á afturhaldsöflunum. Í þessari grein tekur hann upp hanskan fyrir ungar konur og þessari nýju tísku (bubikopf eða cheveu á la garconne) sem hann telur sálarlífseinkenni heimskonunar árið 1925. Dóri segir að þessi nýbreytni í hárfari kvenn hafi vakið upp hrókaræður sem fylli dálk eftir dálk í tímaritum heimsins. Hárið hafi hingað til verið aðalsmerki kvennleikans og eflaust er það þess vegna sem afturhaldsseggirnir titra á beinunum yfir þessari tískubylgju. Hann afbyggir samt þessa hugmyndafræði og spyr: “hvaða hald var fornkonunni í hársíddinni? Hárvöxtur er enginn sjereginleiki kvenna. Hver karlmaður, sem vill, getur látið sér vaxa fagurkembt hár niður á hrygg.”
Menn skiptast síðan í tvær fylkingar eins og alltaf, í afturhaldsflokkin segir Dóri að séu aðlalega “búforkar, matseljur, heiðarlegar kerlingar sem voru aldar upp til barneigna fyrir fjörtíu árum, uppgjafa ráðherrar, gamlir þingmenn og prófessorar sem voru í broddi lífsins árið 1880, þá ómerkilegir pokaprestar af lýðskrumarartaginn...og síðast en ekki síst dygðakróníkuhöfundar er vaða í þeirri sælu villu, að hæst sé að ala upp æskulýðinn með sálardrepandi kjaftavaðli um siðgæði og kristilega hegðun.”
Í hinn flokkin skipast ungir byltingarsinnar sem bera, að sögn Dóra, ekki mikla virðingu fyrir umvöndunarsemi eldra fólksins. Unga kynslóðin: “sakar fortíðina um að hafa lítilsvirt eðli konunar og niðurlægt og meðhöndlað hana eins og sálarleysingja. Fortíðin ól konuna upp sem kynferðisveru einvörðungu –þannig, að hún yrði sem útgengilegust barneignavjel; þegar maðurinn stofnaði heimili sitt, þá var konan húsgagn húsgagnanna.”
Gó Dóri, þetta þætti vart prenthæft í Mogganum í dag 80 árum seinna.
Tvem dögum eftir að grein Halldórs birtist svarar kona nokkur honum með grein sem titluð er Halldór og hárið og kallar hann lítt þroskaðan sveinstaula og setur svolítið ofan í hann sem mér finnst bara ágætt þó ég sé að mestu sammála Dóra.

Ef tískan er sálarlífseinkenni hvers tíma, eins og Halldór Laxnes segir, hvað segir það um okkar tíma árið 2005?
Fyrir 80 árum voru konur fyrst að klippa af sér flétturnar og fá sér drengjakoll, kjólarnir voru beinir niður og styttri en áður en ekki herptir saman um mittið með ógurleg pils til að ýkja kvennlegan vöxt. Þetta segir margt um þá hugarfarsbyltingu sem var að eiga sér stað.
1985, þegar ég var í blóma barnæskunnar voru herðapúðar og víð bein snið allsráðandi, mamma var í essinu sínu, enda bæði herðabreið og vövðastælt. Hvað segir þetta um anda þess tíma, var ´85 tískan að vísa til þess tíma er amma var ung?
Síðan ég man eftir mér hefur tískan bara verið sífelld endurtekning, eilíf skopstæling á einhverju sem var áður, hefur eitthvað nýtt komið fram, eitthvað spennadi og róttækt eins og drengjakollurinn?

3 Comments:

Blogger Fláráður said...

Vá brilla færsla! kanski hafa þessar tískusveiflur einmitt endurspeglað þær áherslur sama hafa verið í gangi á hverjum tíma hvað varðar jafnrétti kynjanna (og eflaust annað). Til dæmis var tískan eins að mestu fyrir konur og kalla á hippatímanum (mikið hár og víð föt) en síðan er 80's herðapúðarnir og dragtirnar ef til vill vísun í að konur ættu að vera eins og kallar (til að ná frama). Núna heldur fólk að "allt sé leyfilegt" þó því fari fjarri.

2:45 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gaman að "heyra" í þér aftur...og gangi þér vel með ritgerðina...þú ert með númerið mitt ef þig vantar comment eða spjall á sköpunarferlinum...gó Þóra

8:54 AM  
Anonymous Anonymous said...

þóra blogga meira þú ert sooooooo skemmtó þú lýsir upp sálu mína

7:15 AM  

Post a Comment

<< Home