ég hef engu gleymt...

...þó að ég tali ekki um það og láti sem ekkert sé

Friday, April 27, 2007

1001 bestu plötur ever

Sigurgeir féll í stafi yfir bók eða eiginlega bíblíu sem Eyvi frændi á, bókin er umfjöllun yfir 1001 bestu plötur ever og fer víst bara nokkuð nærri lagi. Plöturnar voru valdar af grúppu af blaðamönnum frá ýmsum löndum og mér skilst að Arnar Eggert hafi eitthvað komið að bókinni. Plötunar í bókinni eru líka ansi fjölbreyttar, það er ekki bara verið að snobba fyrir grúbbum eins og Sonic Youth. Fólk sem á að sjálfsögðu heima þarna eins og t.d. Brittney og George Michael eru ekki undanskilin.
Sigurgeir er búin að vera með þessa bók algerlega á heilanum og fann síðan heimasíðu tengda bókinni þar sem hægt er að hlusta á þær líka!!!

Það eru held ég fimm íslenskar plötur í bókinni og þær eru svo augljósar að þið ættuð að geta giskað á þær án þess að svindla og kíkja á heimasíðuna.

Wednesday, April 25, 2007

Skuldarar

Ég skellti mér til Eyja um daginn með móðurfjölskyldunni til að fagna 100 ára afmæli Jónasar langafa mínum frá Skuld og ömmu Gunnu (amma í Gaggó). Það var búið að skipuleggja heilmikið prógramm á sumardaginn fyrsta, minningarstund um morguninn, fermingarveisla í hádeginu, í eftirmeiðdaginn var opnun ljósmyndasýningar hjá Sigurgeiri bróðir Ömmu Dúnu. Hann var að halda sína fyrstu einkasýningu og myndirnar á sýningunni spönnuðu allan ferilinn og voru bæði náttúrumyndir, portret og fréttamyndir. Frægustu mynd Sigurgeirs var svo stillt upp í miðju salarins, en hún er úr Surtseyjargosinu.
Um kvöldið var veisla og skuldararnir eru svakalega hresst fólk upp til hópa svo það var tónlist og dans og hlegið mjög hátt. Hressasta liðið endaði svo allt heima hjá Eyva móðurbróður mínum í svakalegu gítarpartíi þar sem lögmálið virtist vera að hressleiki ykist með aldri. Þetta var semsagt allt hið skemmtilegasta ættarmót fyrir þá sem eru hressir að upplagi og ætterni. Fyrir ykkur sem ekki hafið hitt föður minn þá verð ég að segja að hann er ekki hress, hann er eiginlega andstæðan við hress, hann er yfirvegaður, kaldhæðinn og á köflum soldið drumbslegur. Pabbi minn hefur því aldrei almennilega smollið inní þessa móður fjölskyldu mína, ekki að það sé einhver kali á milli þeirra, pabbi er bara soldið úti á þekju á svona ættarmótum. Svo gerist það á þessu ættarmóti að það myndast svolítil stemmning fyrir opinberar játningar af ýmsu tagi. Þetta byrjar í minningarstundinni þegar Sigurgeir ömmubróðir segjir frá prakkarstriki aftan úr æsku, hann ætlaði semsagt að stríða Sjöbbu systir sinni og hellti lampaspritti í súpudiskinn hennar en svo vildi til að langamma Gunna sá til hans og náði að svissa diskum Sjafnar og Sigurgeirs áður en sest var til borðs. Amma sá síðan til þess að Sigurgeir kláraði allan matinn sinn og Sigurgeir greyjið þorði ekki annað en að halda kjafti og hlýða. Um kvöldið tók Gulli frændi míkrafóninn, Gulli er mjög hress og skemmtilegur eins og allir sannir Skuldarar, hann notaði tækifærið og játaði nokkur kvikindisleg prakkarastrik sem skyldmenni hans höfði mátt þola af hans hendi í æsku. Loks þegar nokkuð var liðið á kvöldið og allir orðnir vel hressir þá tók pabbi minn til máls og ákvað að gera hreint fyrir sínum dyrum og játa gamlar syndir. Hann byrjaði að tala um einmitt þetta hvernig hans húmor næði nú ekki alltaf að slá í gegn hjá Skuldurum, sem dæmi um það nefndi hann að þegar hann og mamma hefðu verið par í tíu ár þá kom tengdamamma hans, hún amma Dúna, í heimsókn til okkar í Ameríku. Eftir eitt notalegt kvöldið þá gellur uppúr ömmu: "Steini ég vissi ekki að þú hefðir húmor!" Amma hafði semsagt þekkt pabba í tíu ár og alla tíð haldið að hann væri algerlega húmorsnauður. Svona hefðu samskipti hans við ættina ávalt verið sagði pabbi og þá kom að játningunni. Pabbi ljóstaraði svolitlu sem ég hafði aldrei heyrt. Kynni hans af skuldurum hefðu nefnilega ekki hafist þegar hann kynntist mömmu 17 ára gamall. Fyrstu kynni hans voru nefnilega tveim árum fyrr. Þá fór pabbi með landsprófsbekknum sínum í ferð til Eyja og fékk bekkurinn að gista í gagganum. Pabba og vinum hans hafði tekist að smygla með sér brennivíni og vitanlega var það drukkið, en árvökull húsvörðurinn í gagganum sá til pabba og hirti af honum flöskuna. Húsvörðurinn var auðvitað langafi minn hann Jónas sem var svarinn bindindismaður. Þetta hefði nú allt saman verið í lagi ef pabbi minn hefði ekki gerst svo bíræfinn að banka uppá hjá langafa þegar þau voru að pakka saman og heimta flöskuna sína aftur. Strákskrattanum var auðvitað snarlega hent á dyr. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvernig pabba leið tveim árum seinna þegar hann hitti þennan húsvörð aftur á heimili kærustu sinnar.


Thursday, April 12, 2007

Masculinity makeover

Wednesday, April 04, 2007

"Tveir starfsmenn Olís á Reyðarfirði hafa verið ákærðir vegna mengunarslyssins í sundlauginni á Eskifirði"

Mikið vona ég að þessir menn verði ekki fundnir sekir.

Eitthvað finndist mér nú öfugsnúið við réttarkerfi sem dæmir forstjóra Olís saklausan af því að arðræna landann svo árum skiptir af yfirlögðu ráði, en sakfellir svo lágtsetta starfsmenn sama fyrirtækis fyrir eitt einstakt óviljaverk.

Er það ekki einmitt réttlætingin á þessum ógurlegu launum sem topparnir hafa að þeir bera líka ógurlega ábyrð?
Nei, ég var greinilega eitthvað að misskilja heiminn.

Monday, April 02, 2007

Steinar bróðir minn var fermdur í gær í Laugarneskirkju. Hann fer stundum sínar eigin leiðir. Fyrir nokkrum vikum hafði fermingabarnið nefnilega rölt niður á næstu hæð og beðið Hjalta Hugason pabba Hugrúnar um að ferma sig. Hjalti hafði bara tekið vel í það að ferma barnið enda hafði hann líka skírt það á sínum tíma og því gerði hann samning við Hildi Eir í Laugarneskirku um að hann kæmi inní athöfnina og fermdi þetta eina fermingarbarn. Í síðustu viku fer Hugrún eitthvað að minnast á það við mig að pabbi sinn ætli að ferma Steinar, ég kannst ekki við það og þegar ég ræði um þetta við pabba og mömmu koma þau líka að fjöllum. Þau höfðu ekki hugmynd um þetta samkomulag Steinars og Hjalta frekar en ég. En að sjálfsögðu tókum við þessu fagnandi enda reyndist þetta var mjög skemmtileg fermingarathöfn í gær.

Aðkoma Hjalta að fermingunni var með tvennu móti, ekki nóg með að hann fermdi barnið heldur var hann einnig persónulegur stílisti. Hann lánaði fermingardrengnum nefnilega kjólfatajakka, svona mörgæsajakka . Buxurnar sem fylgdu við jakkan voru allt of stórar svo í staðinn voru venjulegar fermingardrengjabuxur voru látnar duga. Slaufuna og mittislindan fengum við í herrafataverslun kormáks og skjaldar sem er blessunarlega komin aftur á stjá og þetta var síðan allt saman poppað upp með konvers skóm.

Veislan var haldinn heima á Laugarnesveg og þó íbúðin sé ekki nema 88 fm var bara ljómandi gaman. Það er einhvernveginn afslappaðra og vinalegra þegar veislur eru haldnar heima og bara enn skemmtilegra þegar þétt er setið. Þá verða bara allir að spjalla við alla, meira að segja unglingarnir urðu að vera sósíal því það var hvergi hægt að vera í friði.

Fermingardrengurinn fékk svo fullt af flottum gjöfum, vænt seðlabúnt og hafði bara gaman af þessu eins og glettnar pósurnar í fermingarmyndatökunni gefa til kynna .